Innri Áttavitinn

Hópmarkþjálfun fyrir stefnu, skýrleika og utanumhald

  • 90 daga umbreytingarferðalag • 11 skipti • lítill hópur (6–7 manns hámark)

Viltu sitja betur í þér og mæta næstu mánuðum með meiri skýrleika og ró?

Næsti hópur byrjar 11. febrúar, 2026

Innri Áttavitinn er 90 daga hópmarkþjálfunarferli fyrir fólk sem er að ganga í gegnum innri eða ytri breytingar og vill stöðugt, létt utanumhald á meðan það skýrir og tekur næstu skref í lífinu.

Ferlið byggir á lifandi samtali, sjálfsskoðun og markþjálfun í hóp. Innihaldið mótast af því sem er lifandi í hópnum hverju sinni, frekar en fyrirfram ákveðnu námsefni.

Sami hópur hittist vikulega í 11 vikur og fer í gegnum ferlið saman, samhliða því sem hver og einn er að fara sína eigin leið í lífinu. Á milli funda býðst rými fyrir létta sjálfsskoðun fyrir þau sem vilja dýpka ferlið sitt enn frekar — án pressu.

Svona virkar hópmarkþjálfunin

Við hittumst vikulega í 90 mínútur í gegnum fjarfundarbúnað. Hver vika hefur skýran, en sveigjanlegan ramma þar sem við byrjum á að hægja á og lenda, vinnum með sjálfsskoðun og spurningar sem opna skýrleika, og förum síðan í markþjálfun í hóp.

Í hverjum tíma fá 2–3 einstaklingar tækifæri til að fara dýpra með mér í það sem er lifandi hjá þeim. Á meðan fá hinir í hópnum tækifæri til að fylgjast með, spegla sig í ferlinu og tengja það við sína eigin reynslu. Þó við séum hvert á okkar stað, vinnum við oft með svipuð þemu — og því fær hópurinn allur mikið út úr hverri vinnu.

Fyrir hverja er Innri Áttavitinn?

Innri Áttavitinn er fyrir fólk sem finnur að eitthvað er að breytast — eða þarf að breytast — jafnvel þó allt líti vel út að utan. Fyrir fólk sem er orðið þreytt á að hugsa sig áfram, vill hægja á til að komast lengra og gefa spurningum rými áður en teknar eru stórar ákvarðanir.

Þetta ferli hentar sérstaklega vel ef þú vilt dýpt, jarðtengingu og mannlegt rými, án þess að gera breytingar að verkefni eða pressu.

Innri Áttavitinn snýst ekki um að verða betri útgáfa af sjálfum sér, heldur um að verða meira í takt við það sem þú ert — og lifa lífi sem passar þér, ekki væntingum annarra.

Fyrir suma getur einstaklingsmarkþjálfun hentað betur, annað hvort í staðinn fyrir eða samhliða þessu ferli. Á sama tíma eru ákveðnir galdrar sem gerast eingöngu í hóp — í speglun og samveru hóps. Ef þú ert ekki viss hvort hentar þér betur, sæktu samt um og við tökum samtal um það saman.

Hvað færðu út úr ferlinu?

Út frá vinnu minni með einstaklingum síðustu ár upplifa margir sem taka þátt í ferlinu meiri skýrleika í ákvörðunum, dýpri sjálfsþekkingu og meiri innri ró. Þeir finna minni innri þrýsting, skýrari stefnu í lífi og starfi og tilfinningu fyrir því hvað skiptir raunverulega máli.

Þetta gerist ekki vegna þess að einhver segir þeim hvað þau eigi að gera, heldur vegna þess að þau finna sína eigin leið — með stuðningi, speglun og rými til að hægja á.

Öryggi, rými og trúnaður

Hópurinn byggir á trúnaði, virðingu og sameiginlegum samningi um öruggt rými. Upptökur eru aðgengilegar þeim sem missa af tíma, með samþykki hópsins og í fullum trúnaði. Mæting er ekki skyldubundin, en virk þátttaka styður gæði ferlisins og dýpt hópsins.

Af hverju að vinna með mér?

Köllun mín er að vinna með fólki sem vill búa til sitt eigið box í lífinu, í stað þess að troða sér í box annarra eða samfélagsins.

Ég vinn með fólki sem finnur að lífið hafi eitthvað meira að bjóða, jafnvel þó allt líti vel út að utan. Fólki sem er í endurskoðun, á krossgötum eða vill kynnast sjálfu sér betur — án þess að þurfa endilega að vera í krísu eða „laga sig“.

Ég held utan um rýmið, tempóið og öryggið í hópnum, svo þú þurfir ekki að ýta þér áfram eða vita hvert þú ert að fara strax. Hlutverk mitt er ekki að leiða þig eitthvert ákveðið, heldur að hjálpa þér að finna þína eigin stefnu.

Markþjálfi segir þér ekki hvað þú átt að gera. Hann hjálpar þér að finna þinn áfangastað og þína leið — og að kynnast þér betur á leiðinni.

Ég þekki vel upplifunina af því að standa sig, ná árangri og samt finna að eitthvað vanti. Ég starfaði sem forritari í yfir áratug og er menntaður tölvunarfræðingur. Ég skil kröfur, markmið og afkastahugsun — og líka augnablikið þegar maður finnur að það er kominn tími til að endurskilgreina hvað „árangur“ þýðir.

Á tímabili upplifði ég að margt í lífinu breyttist hratt og djúpt. Í kjölfarið hægði ég á, fór að líta inn á við — og ég tók nýja stefnu — en ég gat ekki gert það einn. Ég fékk hjálp, ég fékk rými og speglun. En á endanum fann ég mína leið í gegnum það.

Eftir mikla vinnu og sjálfskoðun færði ég mig á endanum yfir í markþjálfun, sjálfsskoðun, núvitund og líkamsvitund. Ég er ICF (International Coaching Federation)—vottaður markþjálfi, vottuður jógakennari og hef lokið grunnþjálfun í Gestalt—sálarmeðferðarfræði.

En hér snýst þetta ekki um mig — heldur þig og fólkið sem ég vinn með. Sjáum hvað þau hafa að segja:

Umsagnir

Hér eru nokkrar umsagnir frá einstaklingum sem hafa fengið markþjálfun hjá mér:

Viktor Bogdanski 
Eigandi Blindspot Framleiðsla

„Ég var tvístígandi í upphafi, en markþjálfunin með Jónasi varð vendipunktur. Ég fékk ný sjónarhorn, sterkari fókus á langtímamarkmið og verkfæri sem hjálpa mér að komast af stað — bæði faglega og persónulega. Ég mæli heilshugar með honum.“

Jóhanna Magnúsdóttir
Prestur, kennari og fv. aðstoðarskólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar

„Jónas er einstaklega næmur leiðsögumaður. Hann sameinar hefðbundna og óhefðbundna nálgun á mannlega þróun á jarðtengdan og uppbyggilegan hátt. Ég hef bæði haft gagn og ánægju af samstarfinu og mæli eindregið með honum sem leiðsögumanni í lífsgöngunni.“

Arnbór Ágústsson

„Markþjálfunin hjá Jónasi var algjör vendipunktur. Ég byggði upp sjálfstraust, sá eigin virði skýrar og fékk skýra sýn á næstu skref í ferlinum mínum. Ég mætti í viðtöl með öryggi og tilhlökkun og fann loksins hvar ég átti heima.“

Nafnlaus
Tölvunarfræðingur

„Eftir nokkra mánuði í markþjálfun með Jónasi náði ég ótrúlegum framförum bæði í starfi og einkalífi. Hann hjálpaði mér að skýra markmið, sjá möguleika í aðstæðum og taka uppbyggileg skref áfram. Ég er afar þakklát/ur fyrir ferlið.“

Praktískar upplýsingar

Ferlið hefst 11. febrúar og stendur yfir í um 90 daga. Við hittumst vikulega á miðvikudagskvöldum kl. 19:30–21:00 í gegnum fjarfundarbúnað (Zoom). Samtals eru 11 fundir, 90 mínútur í senn, dreifðir yfir 12 vikna tímabil.

Hópurinn er lítill, að hámarki 6–7 manns, til að tryggja öryggi, dýpt og gott utanumhald. Upptökur eru aðgengilegar þeim sem missa af tíma, með samþykki hópsins og í fullum trúnaði.

Verð og greiðslumöguleikar

Early bird
Gildir fyrir umsóknir sem berast til og með 30. janúar
234.000 kr greitt í einu
(greiðsla má fara fram í síðasta lagi 2. febrúar)

Standard verð
Gildir fyrir umsóknir til og með 10. febrúar*
266.000 kr greitt í einu

Greiðsludreifing í boði
3 greiðslur: 299.000 kr samtals (um 99.700 kr á mánuði)
6 greiðslur: 329.000 kr samtals (um 54.800 kr á mánuði)

Greiðsludreifing er í boði til að auka aðgengi, ekki til að minnka gæði ferlisins.

* Lokað er fyrir umsóknir þegar hópurinn er fullskipaður (6–7 manns).

Umsóknarferlið

Vegna þess að þetta er lítið og persónulegt ferli þarf að sækja um þátttöku.

Umsóknin er til að tryggja:

  • að formið henti þér
  • að hópurinn passi saman
  • og að ferlið verði öruggt og gott fyrir alla

Umsókn skuldbindur þig ekki til þátttöku — hún er fyrst og fremst samtal um hvort þetta henti þér.

Ef þú mætir í fyrsta tímann og finnur að þetta sé ekki rétt format fyrir þig, skoðum við það saman. Ef við teljum að 1:1 markþjálfun henti betur, er möguleiki á að umbreyta yfir í það.

Næsta skref

Ef þetta kallar á þig — þá er næsta skref einfalt:

👉 Sækja um í umsóknarforminu hér að neðan:

Smelltu hérna til að sækja um

Athugið: Ég er offline í nokkra daga og svara umsóknum eftir 27. janúar.